Mengandi efni

Fylgja þarf öryggisleiðbeiningum um þekkta krabbameinsvalda á vinnustað en mörg þúsund efni eru í umhverfinu, sum hver mögulegir krabbameinsvaldar. 

Mörg þeirra efna efna sem finna má í umhverfinu, hvort sem þau eru náttúrulega eða manngerð, eru efnasambönd. Sum þessara efna eru mögulegir krabbameinsvaldar. Ekki er nóg að stjórnvöld grípi til aðgerða eins og stefnumörkunar og innleiðingar reglugerða til að vernda þegna sína og draga úr áhrifum krabbameinsvalda heldur þurfa einstaklingar einnig að vera tilbúnir að axla ábyrgð á eigin öryggi og heilsu með því að þiggja ráðin og fara eftir öryggisleiðbeiningum. 

Ef ná á tökum á krabbameinsvöldum á vinnustöðum, í umhverfinu almennt eða heima við er þörf á aðgerðum af hálfu beggja aðila. Stjórnvöld verða að skilgreina stefnur og setja reglugerðir, til dæmis um örugga skammta, örugg svæði og bann á notkun kemískra efna, og gæta þess að farið sé eftir þeim. Framleiðendur og aðrir iðnrekendur verða að sníða vinnsluferlin hjá sér á þann hátt að þau samrýmist reglugerðum og atvinnurekendum ber að sjá til þess að verkamenn þeirra séu öruggir, til dæmis með því að tryggja að öryggisbúnaður og hlífðarbúnaður starfsfólks uppfylli vinnulagsreglur. Sem dæmi má nefna að samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins nr. 2004/37/EC 4 um verndun starfsfólks gegn áhættuþáttum í tengslum við krabbameins- eða stökkbreytingavalda á vinnustöðum skal atvinnurekandi meta reglulega hversu útsett starfsfólk er fyrir krabbameinsvöldum og grípa til viðeigandi aðgerða ef þörf krefur til að standast reglugerðir. Hann skal einnig veita viðeigandi yfirvöldum upplýsingar um fjölda útsettra starfsmanna, varúðarráðstafanir o.fl. ef farið er fram á þær og upplýsa starfsfólk um óeðlilega mengun (mengunarslys) á vinnustaðnum ef um slíkt er að ræða.

Einstaklingar geta einnig lagt sitt af mörkum og stuðlað að heilsusamlegra umhverfi, til dæmis með því að draga úr notkun einkabíla og minnka þar með loftmengun. Mikilvægt er að fylgja heilsu- og öryggisleiðbeiningum á vinnustöðum en þannig geta einstaklingar dregið úr líkum á krabbameini.
Önnur mikilvæg atriði eru: (a) Koma má í veg fyrir starfstengd krabbamein og því er nauðsynlegt að vernda starfsfólk með því að fylgja í einu og öllu þeim leiðbeiningum og reglugerðum sem verkalýðshreyfingar leggja áherslu á. (b) Margar reglugerðir sem innleiddar hafa verið hafa dregið úr þeirri hættu sem starfsfólki stafar af krabbameinsvaldandi efnum sem eru í notkun á vinnustöðum þess en betur má ef duga skal. 

Hversu miklu máli skipta krabbameinsvaldar á vinnustöðum almennt?

Tvöfaldur misskilningur ríkir um hversu oft krabbamein orsakast í raun af krabbameinsvöldum í umhverfinu. Í fyrsta lagi hlýst mesta krabbameinshættan af því þegar einstaklingur er útsettur fyrir miklu magni efnis í nokkur ár, til dæmis á vinnustað. Lítil áhætta fylgir hins vegar útsetningu fyrir sama efni í umhverfinu almennt þar sem það kemur fyrir í mun minna magni. Í öðru lagi getur hugtakið „áhætta“ haft ólíka merkingu eftir því hvort átt er við einstakling eða heilt þýði. Áhætta sem er hlutfallslega lítil fyrir einstakling, til dæmis hættan á að fá lungnakrabbamein af völdum loftmengunar eða óbeinna reykinga, getur engu að síður leitt til hlutfallslega mikils fjölda krabbameinstilfella í þýði ef margir einstaklingar eru útsettir fyrir krabbameinsvöldunum. Ef tiltölulega lítill hópur starfsfólks er hins vegar mjög útsettur eykst hættan á að fá krabbamein mjög meðal þeirra en á sama tíma eru krabbameinstilfellin meðal þýðisins í heild hlutfallslega fá.

Hvaða krabbameinsvaldar eru þeir mikilvægustu í umhverfinu og hvaða krabbameinum valda þeir? 

Sum mikilvægustu efnasamböndin í umhverfi Evrópusambandslanda eru mengunarvaldar sem menga loftið bæði inni og úti, til dæmis öll form af asbesti, bensen, díselvélaútblástur, fjölhringa arómatísk kolvatnsefni, efni sem menga vatn og matvæli svo sem arsenik og ólífræn arsenikefnasambönd og þrávirk lífræn efni eins og díoxín. Alþjóðakrabbameinsrannsóknastofnunin (IARC) hefur nýlega skilgreint loftmengun sem blöndu af mörgum mengunarvöldum sem geti valdið krabbameini.

Fram eru komnar nægar vísbendingar til að fullyrða megi að sumar tegundir krabbameins orsakist af efnum í umhverfinu. Mikilvægustu tegundirnar eru krabbamein í lungum, þvagblöðru og húð, krabbamein í bandvefsþekju (vefur sem klæðir brjósthol, kviðarhol og rýmið sem hjartað er í að innan), hvítblæði og eitlakrabbamein (Mynd 1).

Mynd 1: Helstu myndunarstaðir krabbameina í líkamanum  sem talin eru tengjast efnasamböndum í umhverfinu.       

Heimild: © iStockphoto.com

Alþjóðakrabbameinsrannsóknastofnunin (IARC) vinnur stöðugt að því að meta líkurnar á því að efni og efnasambönd valdi krabbameini í mönnum. Slíkt mat, hvort sem það er framkvæmt af þeirri stofnun eða öðrum alþjóðlegum eða opinberum stofnunum, er oftast fyrsta skrefið í að koma í veg fyrir krabbamein og gera stefnumarkandi aðilum kleift að innleiða aðgerðir til að minnka eða koma í veg fyrir að fólk komist í snertingu við þekkta – og stundum einnig grunaða – krabbameinsvalda. Aðrir krabbameinsvaldar í umhverfinu eru tóbaksreykur (óbeinar reykingar) og útfjólublá geislun sólar.  

Er nægilega gott eftirlit með krabbameinsvöldum í umhverfinu? Eru gerðar fullnægjandi ráðstafanir til að vernda fólk gegn þeim?

Almennt má svara þessari spurningu játandi. Umfangsmikilar inngripsaðgerðir hafa verið kynntar í Evrópusambandslöndum sem ætlað er að ná stjórn á krabbameinsvöldum í umhverfinu. Sem dæmi má nefna að styrkur díoxína í umhverfinu hefur snarminnkað, þar með talið í matvælum og í kjölfarið einnig í fólki. Notkun asbests í hvaða formi sem er hefur enn fremur verið bönnuð í aðildarríkjum Evrópusambandsins.  

Hins vegar er ekki jafn gott eftirlit með öllum efnum í Evrópusambandsríkjunum. Þrátt fyrir að loftmengun í stærstu borgum Evrópu sé mun minni nú á dögum en á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar eru enn strangari öryggismörk sífellt í skoðun. Ný tækni er í þróun, til að mynda hönnun vélrænna nanóagna, og jafnvel þótt slík tækni sé undir ströngu eftirliti sem byggist á bestu þekkingu sem í boði er verður eftir sem áður að rannsaka mögulega krabbameinsáhættu sem hlýst af notkun hennar. Enn fremur geta nýjar samfélagslegar aðstæður ýtt undir áhrif krabbameinsvalda sem áður var haldið í skefjum. Að síðustu geta komið fram nýjar vísbendingar um að efni eða aðstæður sem áður voru taldar skaðlausar geti valdið krabbameini.  

Margar aðgerðir og reglugerðir hafa verið innleiddar til að tryggja gott eftirlit en nauðsynlegt er að endurskoða stöðugt niðurstöðurnar sem þær byggja á og ráðleggingarnar sem gefnar eru. Einnig er nauðsynlegt að hafa samfellt eftirlit með því að reglugerðum sé fylgt. Til dæmis er áhætta tengd asbesti í störfum sem snúa að fjarlægingu, niðurrifi, viðgerðum og viðhaldi á byggingum sem innihalda asbest enn vandamál í sumum löndum.    

Eru til „öruggir“ eða skaðlausir skammtar af krabbameinsvöldum? 

Hugtakið „öruggan skammt“ er erfitt að skilgreina þar sem það byggir á fjölmörgum þáttum öðrum en vísindalegum sönnunargögnum (um að það hafi eiturverkun). Sem dæmi má nefna fjárhagslega þætti (kostnað við að draga úr eða hindra að fólk sé útsett fyrir efninu), lýðheilsufræðilega þætti (heildarsjúkdómabyrði samfélagsins) og félags- og stjórnmálalega þætti (það sem almenningur og stjórnmálamenn telja ásættanlegt).

Almennt er enginn staðfestur öruggur skammtur til hvað varðar krabbameinsvalda og því er í sumum tilfellum ráðlegt að stefna að algjöru notkunarbanni á starfstengdum krabbbameinsvöldum, til dæmis asbesti. Slíkt er aftur á móti ekki mögulegt hvað varðar ýmsa krabbameinsvalda í umhverfinu, svo sem þá sem menga andrúmsloftið. Evrópusambandið hefur til dæmis lagt bann á alla nýtingu asbests í því skyni að koma í veg fyrir krabbameinsvaldandi áhrif þess en hins vegar eru önnur efni til staðar í svo litlum mæli að þau eru álitin ásættanleg. Svifryk í lofti (PM10) er dæmi um slíkan mengunarvald en Evrópusambandið hefur skilgreint tvenns konar viðmið um magn þess, annars vegar meðaltalsgildi fyrir daglegan „öruggan skammt“ og hins vegar meðaltalsgildi fyrir árlegan öruggan skammt. 

Hvaða ráðstafanir er hægt að gera til að vernda sig og fjölskyldu sína?

Hvað varðar flesta krabbameinsvalda í umhverfinu eru árangursríkustu ráðstafanirnar reglugerðir og aðgerðir sem samfélagið framkvæmir í þeim tilgangi að draga úr eða eyða krabbameinsvöldum frekar en einstaklingsbundnar aðgerðir. Aftur á móti er mikilvægt að vita hvaða krabbameinsvaldar það eru sem fólk á von á að komast í snertingu við svo hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir um heilsuna. Meðal þeirra ráða sem einstaklingar geta gripið til eru: 

 • Að gera heimili sitt og nánasta umhverfi reyklaust með því að banna reykingar innanhúss og í ökutækjum.
 • Að vera vakandi fyrir skaðlegum efnum sem eru í vörum sem keyptar eru til heimilisins, lesa innihaldslýsingar á umbúðum og fara nákvæmlega eftir þeim leiðbeiningum sem þar eru settar fram. 
 • Að ráða verktaka sem er sérfræðingur í að eiga við slíkt efni ef fjarlægja þarf asbest – alls ekki sjá um verkið sjálf(ur). Ekki má fleygja úrgangi sem fellur til við fjarlægingu asbests út í umhverfið.
 • Að nota efni í vel loftræstum rýmum eða utandyra. 
 • Að minnka loftmengun innandyra með því að tryggja að loftræsting sé fullnægjandi og nota orkusparandi heimilistæki til hitunar, kælingar og fleira. Einnig má draga úr loftmengun með því að forðast að brenna við, garðúrgang og önnur lífræn efni í opnum eldi. 
 • Að grípa til aðgerða sem henta hverjum og einum til að minnka loftmengun utandyra, til dæmis takmarka notkun einkabílsins og halda honum í góðu ásigkomulagi, hjóla eða nota almenningssamgöngur.
 • Að leggja sitt af mörkum til að minnka hættuna á því að drykkjarvatn og jarðvegur mengist með því að farga öllum heimilisefnum, svo sem skordýraeitri og málningu, á viðeigandi hátt og gera ráðstafanir til að draga sem mest úr heimilisúrgangi.
 • Að taka þátt í að stuðla að heilsusamlegra umhverfi með því að vekja fólk til umhugsunar og hvetja til aðgerða af hálfu almennings eða samfélaga.

Er rétt að önnur efnasambönd, til að mynda þau sem finna má í tilteknum plastefnum, geti einnig verið krabbameinsvaldandi? Er ástæða til að hafa áhyggjur af þeim? 

Til eru mörg þúsund efni sem fólk kemst hugsanlega í snertingu við einhvern tímann á ævinni. Sum þeirra geta aukið hættu á að fá krabbamein. Þó er talið er að íbúar Evrópusambandsins séu aðeins útsettir fyrir nokkrum efnum í svo miklu magni að ástæða sé til að hafa af því áhyggjur.  

Hvernig er hægt að vita af hvaða krabbameinsvöldum sé ástæða til að hafa áhyggjur? Til dæmis hafa verið uppi vangaveltur um mögulega áhættu sem fylgi svokölluðum þalöt-efnum sem eru í sumum plastvörum. Mikið hefur verið rætt um þetta í fjölmiðlum en IARC hefur þó ekki skilgreint þalöt-efni sem krabbameinsvaldandi. Þar að auki metur Evrópusambandið ýmis efni eftir ákveðnum ferlum sem miða að því að finna þau efni sem valda, eða valda hugsanlega, krabbameini í mönnum. Til að staðfest sé að ákveðið efni sé krabbameinsvaldandi þurfa allar vísindalegar ábendingar þar að lútandi að fara í gegnum gagnrýna skoðun sérfræðinga og rannsóknir. Evrópusambandið hefur tekið mikilvægt frumkvæði í að vernda heilsu manna og umhverfið gegn hugsanlegum krabbameinsvöldum.  

Er ástæða til að hafa áhyggjur af því að búa á eða í nágrenni við iðnaðarsvæði? 

Best er að halda sér vel upplýstum með því að fylgjast með tilkynningum og fræðsluefni frá áreiðanlegum aðilum eins og heilbrigðisyfirvöldum á staðnum.
Í sumum tilfellum kemst fólk í meiri snertingu við ýmiss konar mengunarvalda í nágrenni við iðnaðarsvæði en annars staðar, til dæmis nálægt brennsluofnum, sorpstöðvum eða verksmiðjum, og stundum fer magn slíkra mengunarvalda yfir ásættanleg mörk. Enn fremur vakna oft áhyggjur meðal almennings þegar fjölmiðlar greina frá því að fundist hafi möguleg eiturefni í vatni, fæðu, jarðvegi eða lofti eða svokallaðir krabbameinsklasar, sem eru svæði þar sem komið hafa upp óvenju mörg krabbameinstilfelli. Hins vegar hafa mjög fá tilfelli komið upp í Evrópusambandslöndunum á síðustu árum þar sem útsetning fyrir eiturefnum hefur verið tengd við fjölgun krabbameinstilfella. Þrátt fyrir það ætti að gera allt sem mögulegt er til að koma í veg fyrir að almenningur komist í snertingu við efnamengun frá iðnaðarsvæðum og hafa eftirlit með því.     

Loftmengun getur einnig verið mikil á svæðum þar sem bílaumferð er þung. Til að minnka loftmengun og hættu á að fólk komist í snertingu við hana þurfa samfélög og stjórnvöld að vinna saman. Þótt yfirvöld þurfi að semja reglugerðir, staðfesta þær og fylgja þeim eftir verður einnig að bjóða upp á aðra valkosti en einkabílanotkun svo að allir geti lagt sitt af mörkum með því að nota frekar almenningssamgöngur, hjóla eða ganga. 

Hvaða starfsgreinar fela í sér aukna hættu á krabbameini og um hvaða krabbamein er helst að ræða?

Sýnt hefur verið fram á að aukin hætta á tilteknum krabbameinum tengist ákveðnum starfsgreinum og tilteknum mengunarvöldum sem finnast á vinnustöðum. Nokkrum af mikilvægustu krabbameinsvöldunum er lýst hér á eftir: 

 • Arómatísk amín
 • Asbest
 • Króm (VI)
 • Díselvélaútblástur 
 • Jarðefnaolía, óunnin eða lítið unnin (hráolía?)
 • Fjölhringa kolvatnsefni
 • Kísilryk

Í töflu 1 eru sýndar starfsgreinar þar sem tíðni krabbameins er hærri en gerist og gengur. Krabbameinsvaldurinn hefur verið greindur og staðfestur í sumum tilvikum en ekki öðrum. 

Tafla 1: Starfsgreinar sem geta aukið líkur á krabbameini  

Starfsgrein eða iðnaður  Svæði í líkamanum þar sem krabbamein geta myndast
Álframleiðsla lungu, þvagblaðra
Auramínframleiðsla þvagblaðra
Kolagösun lungu
Koltjörueiming húð
Koksframleiðsla lungu
Hematítnámugröftur lungu
Járn- og stálbræðsla lungu
Ísóprópýlalkóhólframleiðsla nefhol og afholur nefs
Framleiðsla á blárauðu litarefni þvagblaðra
Málning lungu, fleiðra, þvagblaðra
Gúmmíframleiðsla  hvítblæði, eitlakrabbamein, lungu, magi, þvagblaðra

Heimild: Yfirfært frá Cogliano VJ, Baan R, Straif K et al. (2011). Preventable exposures associated with human cancers. J Natl Cancer Inst, 103:1827–1829, með leyfi frá Oxford University Press.

Á vinnustöðum eru tengslin milli krabbameinsvalda og starfsfólks yfirleitt flókin en fólk getur ýmist komist í tæri við efnin ein og sér, efnablöndur eða efni ásamt öðrum vinnutengdum krabbameinsvöldum svo sem reykingum og áfengisdrykkju. Þannig geta starfsmenn verið útsettir fyrir mörgum efnum og þau geta haft áhrif á mörg líffæri. Krabbameinsvaldar á vinnustað valda fyrst og fremst lungnakrabbameini en einnig oft krabbameini í frumum bandvefsþekju – (verndandi himna sem þekur brjóstholið, kviðarhol og holrúmið utan um hjartað), þvagblöðru og vélinda (Mynd 2).

Mynd 2: Líffæri sem krabbamein myndast í vegna krabbameinsvalda á vinnustað.

Heimild: iStockphoto.com

Fólk sem vinnur utandyra, þar með taldir byggingarverkamenn, bændur, sundverðir og garðyrkjumenn, er oft í aukinni hættu á að hljóta skaða af völdum útfjólublárra geisla þar sem húð þess er gjarnan óvarin fyrir sól. Önnur dæmi um krabbameinsvalda á vinnustöðum eru reykur (óbeinar reykingar) og geislun. 

Verður víxlverkun milli efnasambanda á vinnustöðum eða milli þeirra og lífsstílsþátta?

Já. Í sumu starfsumhverfi, eða á starfsævi einstaklings, kemst fólk í tæri við marga starfstengda krabbameinsvalda, ýmist samtímis eða hvern á eftir öðrum. Algeng dæmi um slíkar samsetningar eru radongeislun eða arsenik og kísilryk, asbest og fjölhringa kolvatnsefni og króm og nikkelsambönd. Reykingar bæta oft gráu ofan á svart hvað starfstengda krabbameinsáhættu varðar. Til dæmis er hættan á lungnakrabbameini meðal þeirra sem vinna með asbest miklu meiri hjá reykingafólki en þeim sem ekki reykja og reykingar eru sterkari áhættuþáttur hjá þessum einstaklingum en asbestið.  

Hvernig er hægt að vita hvort krabbamein stafi af krabbameinsvöldum á vinnustað einstaklingsins?

Einkenni starfstengdra krabbameina eru yfirleitt ekki önnur en einkenni annarra krabbameina. Reyndar er almennt ekki hægt að ákvarða nákvæmlega orsök krabbameins í einstaklingi. Læknismeðferðin er sú sama fyrir öll krabbamein af sömu gerð. Sum krabbamein eru aftur á móti aðallega af starfstengdum uppruna. Sem dæmi má nefna að fleyðrukrabbamein (mesothelioma) má í langflestum tilfellum rekja til asbests. Í öðrum tilvikum, einkum hvað varðar lungnakrabbamein, eru einstaklingarnir líka með, eða hafa áður fengið, skylda sjúkdóma eins og kísillunga (eftir að hafa andað að sér kísilryki) eða asbesteitrun (eftir að hafa andað að sér asbesti), sem bendir til þess að kísilryk eða asbest hafi valdið krabbameininu.    

Í Evrópusambandinu er hægt að krefjast skaðabóta ef einstaklingur hefur greinst með starfstengt krabbamein. Leiki grunur á að orsök krabbameins sé starfstengd ber að láta lækni vita og gangast undir nákvæma skoðun og læknisfræðilegt mat á því hvort orsökin sé sú. Læknirinn aðstoðar sjúklinginn við að sækja um skaðabætur ef svo ber undir. Til að það sé hægt verður læknirinn einnig að staðfesta læknisfræðileg gögn þar að lútandi samkvæmt almennum reglum og lögum ríkisins.

Er nægilegt eftirlit með krabbameinsvöldum á vinnustöðum og hvað er hægt að gera til að vernda sig og fjölskyldu sína? 

Já, oftast, því hægt er að forðast áhættu sem stafar af krabbameinsvöldum á vinnustöðum og því er besta forvarnarleiðin að nota hvorki krabbameinsvalda né nokkuð annað sem gæti leitt til myndunar þeirra á vinnustað, til dæmis með því að nota aðra tækni eða efni í staðinn. Slíkt inngrip krefst þess oft að yfirvöld grípi í taumana og innleiði eftirlitskerfi. Öll aðildarlönd Evrópusambandsins hafa nú innleitt löggjöf varðandi hættuleg efni sem leggja skyldur á herðar bæði starfsfólki og stjórnendum. Það er því á ábyrgð starfsfólks að fylgja öryggisreglum í vinnunni. Af þessu leiðir að dregið hefur úr áhrifum margra krabbameinsvalda á vinnustöðum.

En af hverju er bara oftast nægilega gott eftirlit? Lagasetning ein sér verndar ekki; forvarnaraðgerðum verður að hrinda í framkvæmd og starfsfólk þarf að hlíta reglum og leiðbeiningum um holla og örugga starfshætti. Þess vegna er nauðsynlegt að stöðugt eftirlit sé með því hversu vel sé farið eftir reglum um öryggi á vinnustað. Eftirlit á vinnustöðum tryggir að starfsfólk komist í eins litla snertingu við krabbameinsvalda og kostur er, hvort sem það eru efni í andrúmslofti, efni sem innbyrt eru eða efni sem snerta húð. Þær aðgerðir (sjá mynd 3) sem nauðsynlegar eru og oftast framkvæmdar af vinnueftirlitsfulltrúa eru: 

 • Að kanna þau ferli þar sem efnin eru notuð eða gætu myndast.
 • Að tryggja að öryggis sé gætt við allar vinnsluaðgerðir.
 • Að mæla styrk efna í lofti.
 • Að tryggja að öryggisbúnaður fyrir einstaklinga sé viðeigandi, til að mynda hjálmar, hanskar, augnhlífar, öryggisfatnaður o.þ.h.), að hann sé notaður rétt og honum viðhaldið.
 • Að tryggja gott hreinlæti starfsfólks.
 • Að mæla, þar sem þörf krefur, hversu mikið starfsfólk er útsett fyrir efnum og koma á fót og viðhalda viðeigandi ferlum við skráningu, tilkynningar og endurskoðun.

Mynd 3: Hefðfbundið stigveldi aðgerða við eftirlit með krabbameinsvöldum.

Heimild: Yfirfært með leyfi frá National Institute of Occupational Safety and Health/Centers for Disease Control and Prevention “Control Banding Safety and Health” Web Topic Page.

Er mögulegt að innleiða heilsu- og forvarnaeflandi aðgerðir á vinnustað? 

Já. Þar sem vinnustaðurinn hefur bein áhrif á heilsu og velferð starfsfólks og þar með fjölskyldur þess, ýmsa hópa og þjóðfélagið í heild, er hann tilvalinn vettvangur til að styðja við forvarnar- og heilsueflingaraðgerðir fyrir stóra hópa fólks, svo sem aðgerðir sem stuðla að því að draga úr reykingum og auka daglega líkamshreyfingu og heilsusamlegt mataræði. Með því að sameina viðleitni atvinnurekanda, launþega og samfélagsins alls gegnum starfstengd heilsuverkefni og hvetja til heilbrigðs lífsstíls og aukinnar þátttöku starfsfólks í að móta starfsumhverfið er hægt að stuðla að bættri heilsu og velferð starfsfólksins í vinnunni.

Veldur streita á vinnustað krabbameini?

Streita er ekki viðurkenndur krabbameinsvaldur. Til að mynda hefur stór rannsókn sem gerð var á evrópskum körlum og konum í mörgum mismunandi vinnuaðstæðum gefið til kynna að ólíklegt sé að streita í vinnunni auki hættu á að fá krabbamein. Aðstæður sem valda streitu geta þó ýtt undir óholla hegðun hjá sumum einstaklingum, svo sem reykingar, ofát og óhóflega áfengisdrykkju, sem eykur krabbameinshættu.   


Var efnið hjálplegt?